Fréttir | 19. september 2019 - kl. 10:32
Yfir 5 þúsund kærur vegna hraðaksturs

Lögreglan á Norðurlandi vestra stöðvaði á mánudaginn ökumann bifreiðar á 170 kílómetra hraða á klukkustund á þjóðvegi 1 í Blönduhlíð í Skagafirði. Ökumaðurinn, sem var erlendur ferðamaður, þurfti að greiða 240 þúsund króna sekt á staðnum og hætt akstri bifreiðarinnar. Sagt er frá þessu á Facebook síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra en þar kemur einnig fram að hún hafi verið með mjög öflugt umferðareftirlit það sem af er ári.

Þann 1. september síðastliðinn voru kærur embættisins orðnar 5.399 talsins og af því voru 5.077 vegna hraðaksturs. Tölurnar eru sambærilegar og fyrir árið 2018 en þá fækkaði umferðaróhöppum í umdæminu um 26% frá árinu á undan. Slysatökur fyrir árið 2019 eru sömuleiðis sambærilegar við árið á undan.

Álagðar sektir vegna umferðarlagabrota á fyrstu átta mánuðum ársins hjá embættinu eru alls rúmar 322 milljónir króna en rekstrarframlag ríkisins til embættisins á sama tímabili er u.þ.b. 245 milljónir króna. Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra er því að skila 77 milljónum í ríkissjóð á umræddu tímabili að ógleymdum sparnaði sem fækkun umferðaslysa hefur í för með sér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga