Fréttir | 30. september 2019 - kl. 11:22
Vilji til að endurnýja samning um málefni fatlaðs fólks

Sveitarfélagið Skagafjörður er reiðubúið að endurnýja samstarfssamning um þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra við öll sveitarfélög á svæðinu. Þetta kom fram á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku er málefnið var rætt. Húnaþing vestra ákvað í síðasta mánuði að endurnýja ekki samninginn og því ákvað Sveitarfélagið Skagafjörður að draga sig út úr samstarfinu. „Samstarf þetta hefur verið í gildi sl. 20 ár og verið farsælt. Ábyrgð sveitarfélaganna í málaflokknum er ríkuleg gagnvart fötluðu fólki á svæðinu sem þarf á þjónustunni að halda,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Sveitarfélagið Skagafjörður er leiðandi í samningnum, sem tók gildi 1. janúar 2016, um að veita fötluðu fólki sem á lögheimili á svæðinu þjónustu í samræmi við ákvæði laga og eins og nánar er kveðið á um í samningnum. Gildistími var eitt ár en samningurinn var endurnýjaður með gildistíma til ársloka 2019. Í samningnum er kveðið á um að samningsaðilar skulu ákveða sameiginlega fyrir 1. september 2019 hvort stefna skuli að endurnýjun samningsins. Sveitarfélögin fimm sem standa að samningnum eru Akrahreppur, Blönduósbær, Húnavatnshreppur Sveitarfélagið Skagafjörður og Húnaþing vestra. 

Byggðaráð Blönduósbæjar bókaði sérstaklega um málefnið á dögunum og harmaði að Sveitarfélagið Skagafjörður ætlaði að draga sig út úr samstarfinu. Ráðið lýsti yfir furðu sinni á því að ekki hafi verið látið reyna á nýjan samning, á milli þeirra sveitarfélaga sem lýst höfðu áhuga sínum á að halda samstarfinu áfram, á svipuðum forsendum og verið hefur.

Tengdar fréttir:

Byggðaráð Blönduósbæjar bókaði um samning um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra á síðasta fundi sínum

Samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra ekki endurnýjaður

Endurnýja ekki samning um málefni fatlaðs fólks

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga