Fréttir | 30. september 2019 - kl. 13:30
Tugir ökumanna stöðvaðir fyrir hraðakstur

Á áttunda tug ökumanna voru stöðvaðir fyrir ýmis umferðarlagabrot í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra um helgina og var of hraður akstur mest áberandi. Þrjú fíkniefnamál komu upp og var magn fíkniefna talsvert en talið er að það hafi verið ætlað til sölu á svæðinu, að því er segir í tilkynningu. Lögreglan naut aðstoðar fíkniefnaleitarhunds og þjálfara lögreglunnar á Austurlandi. Fjöldi lögreglumanna stóð vaktina um helgina enda mikið um að vera í kringum Laufskálarétt sem fór vel fram í blíðskaparveðri.

Fyrri part vikunnar lagði lögreglan á Norðurlandi vestra hald á umtalsvert magn fíkniefna. Þar var um að ræða bæði kannabisefni og örvandi efna sem talin eru hafa verið ætluð til sölu. Þá voru, í vikunni sem leið, sex ökumenn kærðir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana og -fíkniefna.

Lögreglan minnir enn og aftur á fíkniefnasímann 800-5005, sem er gjaldfrjálst símanúmer, þar sem unnt er að koma á framfæri ábendingum um fíkniefnamál.

Facebook síða lögreglunnar á Norðurlandi vestra er hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga