Fréttir | 02. október 2019 - kl. 18:26
Stóðréttir í Víðidalstungurétt um helgina

Stóðréttir og smölun verða í Víðidal dagana 4.- 5. október. Á föstudaginn er stóðsmölun og verður stóðinu hleypt í gegnum hliðið við Bergárbrú klukkan 14:30. Áð verður að Kolugili og lagt þaðan af stað með stóðið klukkan 17:30. Á laugardaginn verður stóðið rekið til Víðidalstunguréttar klukkan 11:00 og þá hefjast réttarstörf. Stóðréttarpartí verður á Gauksmýri á föstudagskvöld og stóðréttardansleikur í Víðihlíð á laugardagskvöld.

Það verður brjálað fjör í gestastofunni í reiðskemmunni á Gauksmýri föstudagskvöldið 4. október á eftir stóðsmöluninni í Víðidal. Gestastofan opnar klukkan 21:30. Júlli trúbador ætlar að halda uppi fjörinu með lifandi tónlist upp úr klukkan 22. Barinn verður opinn, frítt inn og aldurstakmark er 18 ár.

Stóðréttardansleikurinn í Víðihlíð hefst klukkan 23 laugardagskvöldið 5. október. Húnvetnska hljómsveitin Trukkarnir ætla að halda upp dúndur stemningu allt kvöldið. Miðaverð er 3.500 krónur og hægt verður að kaupa miða í réttunum fyrr um daginn og í dyrunum um kvöldið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga