Nöldrið | 14. október 2019 - kl. 10:39
Haustnöldur

Sumarið er búið og haustlægðirnar koma nú til okkar hver af annarri. Maður er farinn að finna lykt af vetri enda styttist í fyrsta vetrardag. Það kætir mig svo sem ekkert, enda líkar mér ólíkt betur við blessað sumarið og sólina og fæ hroll af að hugsa um stórhríð og snjóskafla. Á þessum árstíma dettur mér oft í hug ljóð eftir Davíð Stefánsson þar sem þessar hendingar koma fyrir: „Þeir vita það best hvað vetur er, sem vorinu heitast unna.“        

En ekki þýðir neitt vol og væl, við fengum alveg þokkalegt sumar þar sem hefðbundnar hátíðir komu hver af annarri eins og haustlægðirnar, Prjónagleðin, ágætlega sótt að mér skilst, Smábæjarleikarnir, sem mér sýnist heldur færri sækja með hverju árinu, 17. júní með allt of hefðbundnum hátíðarhöldum sem mætti aðeins fara að uppfæra og það sama má segja um Húnavöku, sem er að verða frekar óspennandi að margra mati. Af hverju, til dæmis, var ekkert um að vera á bæjartorginu á laugardeginum þar sem kjörið er að vera með alls konar sprell og sölubása, svo ekki sé minnst á söngvarakeppni fyrir ungafólkið sem virðist hætt að bjóða uppá. Nefndin sem sér um að ráða dagskrárgerðarmann Húnavöku verður að gera meiri kröfur. Það er ekki nóg að ráða einhvern aðkomumann sem ekkert þekkir hér til og gefa honum frjálsar hendur, hversu góður sem hann er, það þarf að gera betur svo þessi annars frábæra bæjarhátíð okkar standi undir nafni og missi ekki aðdráttarafl sitt.

Á þjóðhátíðardaginn í sumar settist ég við sjónvarpið eins og stundum áður kl. 10:30 að morgni og horfði á hátíðarhöldin við Austurvöll í Reykjavík. Þar fór að venju fram hefðbundin dagskrá þar sem sungin voru ættjarðarlög, lagður  blómsveigur við styttu Jóns Sigurðssonar og forsætisráðherra hélt ræðu og að venju gekk svo fjallkonan frá Alþingishúsinu að ræðupúlti og flutti ljóð. Þarna gekk fram glæsileg ung kona, íslendingur af erlendu þjóðerni í íslenskum skautbúningi sem hún bar af mikilli reisn og glæsibrag  og flutti ljóðið: „Landið flokkar ekki fólk“ eftir, að mínu mati, einn af okkar bestu ljóðskáldum, Bubba Mortens. Þetta ljóð má segja að sé hylling til fjölmenningarsamfélagsins.

Þess þurfti ekki lengi að bíða að upp risu afturhaldsseggirnir á netinu sem allt þurfa að rífa niður sem ekki þjónar þeirra þröngsýna sjónarhorni og hatast við þjóðtrú okkar, kristnina, að ég tali nú ekki um múslima, innflytjendur og loftslagsbreytingar o.fl.o.fl.

Það var skammast yfir þeirri ósvinnu að velja leikkonu til að flytja ljóðið sem væri ekki íslensk, en farðir hennar er bandaríkjamaður af afrískum uppruna og 17. júní er sko þjóðhátíðardagur íslendinga. Þó á stúlkan íslenska móður og er uppalin hér og talar betri íslensku en margur íslendingurinn sem vill helst nota ensku.

Ég vona að það sé ekki stór hópur sem hatast við allt það erlenda fólk sem hingað hefur flutt eða flúið, þó mikið fari fyrir þeim á ýmsum samfélagsmiðlum. Hvar værum við stödd ef útlendingar væru ekki í þeim störfum sem íslendingar vilja ekki vinna. Hvað erum við að gera okkur merkileg? Erum við ekki öll flóttamenn eða innflytjendur frá Noregi eða Írlandi. Mér finnst það satt að segja til skammar hvernig rasistar fá að vaða uppi á netmiðlum með sínar smánarlegu hugmyndir um hreint þjóðfélag og hvað þurfa að líða mörg ár, margar aldir þangað til hvíti kynstofninn viðurkennir að hann er ekkert æðri öðrum sem eru  dekkri á hörund en við.

Segjum eins og Bubbi: „Rífum niður múrana og göngum inn í víðáttu frelsisins og fögnum lífinu.“

Þar sem þessi pistill er orðinn eitt allsherjar nöldur, eins og vera bera, verð ég að varpa fram þeirri spurningu hver hafi ákveðið það að nú megi ekki lengur birta nöfn fermingarbarna í dagblöðum landsins eins og tíðkast hefur árum saman, t.d. í Mogganum. Er þetta komið frá Persónuvernd og hvern er þá verið að vernda? Er það orðið feimnismál að barn sé fermt að kristnum sið í kirkjunni sinni eins og verið hefur um aldir? Hvað verður næst, kannski má ekki auglýsa að jarðsett verði frá þessari eða hinni kirkjunni, eða brúðkaup, burt með þau úr kirkjunni eins og grunnskólabörnin sem þangað mega ekki koma inn fyrir dyr á skólatíma eða hlýða á prest á litlu jólunum í skólanum. Kristni er  ennþá þjóðtrú í landinu okkar og meirihluti landsmanna játar kristna trú og við eigum ekki og viljum ekki fara í felur með hana þó vegið sé að henni úr öllum áttum.  

Kveðja
Nöldri

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga