Blöndulón
Blöndulón
Fréttir | 16. október 2019 - kl. 10:14
Stofna verkefnaráð vegna Blöndulínu 3

Landsnet vinnur að stofnun verkefnaráðs til undirbúnings Blöndulínu 3 sem verður 220 kV raflína milli Blöndustöðvar og Akureyrar. Leitað hefur verið til fimm sveitarfélaga um að tilnefna fulltrúa í ráðið, þar á meðal til Húnavatnshrepps. Þá hefur verið óskað eftir því Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra tilefni fulltrúa í verkefnaráðið.

Markmiðið með nýju línunni er að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi þannig að það ráði betur við truflanir og auki hagkvæmni í orkuvinnslu með samtengingu virkjanasvæða. Það mun þjóna allri uppbyggingu á Norður- og Austurlandi.

Fjallað erum þetta í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að leitað hafi verið til sveitarfélaga um að tilnefna fulltrúa. Þau eru auk Húnavatnshrepps, Akrahreppur, Akureyrarbær, Hörgársveit og Sveitarfélagið Skagafjörður. Þá hafa atvinnuþróunarfélög og önnur samtök á svæðinu verið beðin um að tilnefna fulltrúa. Þau eru auk SSNV, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Eyþing – samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Háskólinn á Akureyri, Skógræktin, SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi og Ungir umhverfissinnar.

„Við stofnum verkefnaráð vegna allra stærri framkvæmda okkar í dag og leitum til staðbundinna hagsmunaaðila um að koma snemma að borðinu. Þeir verða okkar augu og eyru inn í samfélagið,“ sagði Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets í samtali við Morgunblaði.

Sjá nánari umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga