Fréttir | 17. október 2019 - kl. 13:45
Vatnsnesvegur í endurskoðaðri samgönguáætlun

Drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024 er nú kynnt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar og verður opið fyrir athugasemdir og ábendingar til og með fimmtudeginum 31. október næstkomandi. Þverárfjallsvegur um Refasveit og Skagastrandarvegur um Laxá eru í áætluninni sem og Vatnsnesvegur.

Gert er ráð fyrir 1,5 milljarði króna í Þverárfjallsveg um Refasveit og Skagastrandarveg um Laxá og að sú fjárveiting verði veitt á 1. tímabili eða árin 2020-2040. Í sumar óskaði Vegagerðin eftir tilboðum í for- og verkhönnun verkefnisins sem er 16,3 kílómetrar að lengd. Forhönnun á að vera lokið fyrir 10. janúar 2020 og verkhönnun fyrir 15. maí 2020.

Þá er gert ráð fyrir 3 milljörðum króna á ýmsa staði á Vatnsnesvegi eins og það er orðað í áætluninni. Fjárveitingin er ætluð til lagfæringar og lagningar bundins slitlags á veginum á ýmsum stöðum, samtals á 60 kílómetra. Sú fjárveiting er sett á 3. tímabil sem er árin 2030-2034 eða eftir 10-15 ár.

Nálgast má samgönguáætlunina og aðgerðaráætlunina í Samráðsgáttinni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga