Fréttir | 18. október 2019 - kl. 11:02
Tónleikar í Bjarmanesi í kvöld

Dúettinn GG blús heldur tónleika í Bjarmanesi á Skagaströnd í kvöld klukkan 22-20:30. Blúsdúettinn er frá Álftanesi og samanstendur af tveimur Guðmundum, annar spilar á gítar og hinn á trommur. Þeir nafnar hafa marga fjöruna sopið. Guðmundur Jónsson var t.d. í Sálinni hans Jóns míns og Janus, og Guðmundur Gunnlaugsson spilaði með Centaur, Sixties og fleirum.

Þeir félagar hafa nýverið gefið út sína fyrstu plötu, Punch. Hún inniheldur sjö frumsamin lög og þrjár ábreiður þar sem frasaskotin gítarvinna tekst á við óhaminn trommusláttinn og grípandi sönglínur fljóta yfir með tregafullum enskum textum, ásamt hljóðbrotum og þankagangi úr ýmsum áttum.

Tvímenningarnir hafa undanfarin misseri spilað sígrænar ábreiður hér og hvar, um borg og bý og komið meðal annars fram á Blúshátíð Reykjavíkur við góðan orðstír.

Á tónleikunum mun GG blús leika að jöfnu þeirra eigin ópusa af nýju plötunni sinni Punch og vel valdar blús-rokk ábreiður genginna kynslóða.

Aðgangseyrir: 2000 krónur

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga