Þari í Húnaflóa. Ljósm: Úr skýrslu Biopol.
Þari í Húnaflóa. Ljósm: Úr skýrslu Biopol.
Fréttir | 23. október 2019 - kl. 11:22
Þarabreiður í Húnaflóa skoðaðar

Biopol á Skagaströnd hefur að undanförnu stundað athuganir á þarabreiðum í austanverðum Húnaflóa. Verkefnið ber heitið „Þarabreiður í Húnaflóa – Athugun á nýtingu á sjálfbæran hátt“. Tilgangur þess var að gera forkönnun á nýtingu þaraskóga með áherslu á stórþara, hrossaþara og beltisþara. Verkefnið var styrkt af Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og unnið í samstarfi við Náttúrustofnun Norðurlands vestra.

Verkefninu er skipt upp í sýnatökur annars vegar og hins vegar áætlun um heildarmagn þara á svæðinu sem má vinna með sjálfbærum hætti. Nokkrar þarabreiður voru myndaðar með neðansjávardróna sem fékkst fyrir styrkféð.

Á vef Biopol segir að myndirnar frá drónanum geti nýst þeim sem áhuga hafa á nýtingu á þara eða jafnvel ígulkerjum sem nærast á þara og sjást því vel á myndskeiðunum. Myndefnið geti einnig nýst í tengslum við frekari rannsóknir á þarabreiðunum svo sem vaxtarhraða þara og samkeppni við afætur eða ásætur og mati á framlagi þara til kolefnisbindingar.

Skýrslu um verkefnið má lesa hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga