Langidalur
Langidalur
Fréttir | 29. október 2019 - kl. 09:51
Haustdagur ferðaþjónustunnar

Haustdagur ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra verður haldinn á Hótel Laugarbakka þriðjudaginn 12. nóvember næstkomandi. Ferðamálafélögin á svæðinu og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra standa fyrir svokallaðri óráðstefnu frá klukkan 13-16 en áður en hún byrjar er súpa og spjall frá klukkan 12:15. Á vef SSNV segir að óráðstefna sé vestur-húnvetnska þýðingin á engilsaxneska hugtakinu „unconference“ eða „Barcamp“ eins og það sé kallað á meginlandinu.

Fundarefnið er sem sagt í höndum þátttakenda á ráðstefnunni, „en auðvitað verða allir með réttu ráði, því útkoman skiptir okkur jú öll máli,“ segir á vef SSN.

Dagskráin er þessi:

  1. SKYNDIKYNNINGAR (hver þátttakandi kynnir sig: Nafn, fyrirtæki (gjarna með eins og þremur „hashtöggum“ (eitt fyrir sig, eitt fyrir fyirtækið og eitt fyrir Norðurland vestra)
    OG
    INNGANGUR  (fyrirkomulag útskýrt og óráðsíumálefni borin upp til atkvæða og síuð út..)
  2. ÓRÁÐSSÍA nr.1.    
  3. ÓRÁÐSSÍA nr. 2  
  4. Kaffipása
  5. ÓRÁÐSSÍA nr. 3
  6. PEPP FYRIR HEIMFERÐ FRÁ EINUM RÁÐAGÓÐUM  AÐ SUNNAN  

Í hverri óráðssíu verður krufinn málaflokkur sem þátttakendur telja að skipti máli fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi vestra en fjöldi málefna/hópa og fjöldi í hóp ráðast af þátttakendafjölda. Málefni má stinga upp á við skráningu eða á staðnum og þau eru svo borin upp til atkvæða.

Skráning er hér til mánudagsins 11.11.2019.

Þetta er fjórða árið sem ferðamálafélögin á Norðurlandi vestra og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra standa fyrir þessum samráðsvettvangi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga