Frá afhendingunni í gær. Ljósm: hunathing.is
Frá afhendingunni í gær. Ljósm: hunathing.is
Fréttir | 31. október 2019 - kl. 09:14
Samfélagsviðurkenningar veittar í Húnaþingi vestra

Í gær voru samfélagsviðurkenningar Húnaþings vestra afhentar en þær hljóta Elinborg Sigurgeirsdóttir, Þuríður Þorleifsdóttir og Leikflokkur Húnaþings vestra. Fyrr í haust kallaði fjölskyldusvið Húnaþings vestra eftir tilnefningum frá íbúum sveitarfélagsins um þá aðila sem þeir telja eiga skilið virðingarvott fyrir verk sín eða störf í þágu samfélags okkar.  

Viðurkenningarnar eru veittar annað hvert ár og er er þetta í þriðja sinn sem það er gert. Fjölskyldusviði bárust margar góðar tilnefningar og var úr vöndu að velja. Að lokinn afhendingu var boðið upp á dýrindis köku sem Daðey Arna Þorsteinsdóttir 11 ára bakaði af þessu tilefni. 

Elinborg hefur lagt mikið af mörkum í þágu tónlistar í Húnaþingi vestra. Hún hefur um áratugaskeið starfað  sem skólastjóri, kennari, undirleikari, meðlimur í hljómsveitum og nánast öllu sem kemur að útbreiðslu tónlistar og sönglistar sem er með miklum blóma í sveitarfélaginu.

Þuríður hefur með einstakri elju og dugnaði unnið að endurbótum á Verslunarminjasafninu og Gallerí Bardúsu. Óhemju mikil sjálfboðavinna liggur að baki þeim árangri sem þar hefur náðst sem hefur vakið eftirtekt heimafólks og gesta Húnaþings vestra.  

Leikflokkurinn hefur vakið athygli fyrir öflugt starf og metnaðarfull verkefni. Fyrr á árinu var sýning leikflokksins á Hárinu valin sem áhugaverðasta áhugamannasýning ársins á landinu.  Leikflokkurinn er fyrirmyndar félagsskapur og hvetjandi fyrir samfélagið og hefur lagt sitt af mörkum við að kynna samfélagið út á við.  

Sagt er frá þessu á vef Húnaþings vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga