Úr Hólaneskirkju. Ljósm: FB/Skagastrandarprestakall
Úr Hólaneskirkju. Ljósm: FB/Skagastrandarprestakall
Fréttir | 04. nóvember 2019 - kl. 17:04
Hólaneskirkja tekur þátt í verkefninu Jól í skókassa

Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn og fullorðna til að gleðja önnur börn, sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika, með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Á Facebook síðu Skagastrandarprestakalls er sagt frá því um 70 kassar og gjafir til að setja í fleiri kassa hafi borist til Hólaneskirkju.

Kassarnir fara síðan frá Skagaströnd til Reykjavíkur og þaðan eru þeir sendir til sendir til Úkraínu. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Fram kemur á vef KFUM og KFUK hér á landi, sem hafa veg og vanda að verkefninu, að íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt. Kirkjan í Úkraínu er rússnesk rétttrúnaðarkirkja, en KFUM í Úkraínu starfar innan þeirrar kirkjudeildar. Aðalskipuleggjandi dreifingarinnar í Úkraínu er faðir Evheniy Zhabkovskiy sem komið hefur hingað til lands í heimsókn og m.a. kynnt sér starf KFUM og KFUK hér á landi.

Tekið er á móti skókössum í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 í Reykjavík alla virka daga kl. 9:00 – 17:00 fram að síðasta skiladegi sem er 9. nóvember næstkomandi.

Sjá nánar á vefnum Jól í skókassa.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga