Fréttir | 10. nóvember 2019 - kl. 10:59
Margir óku framhjá slösuðum ökumanni

Í síðustu viku varð óhapp í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra er bifreið ók út af veginum og valt. Ökumaður komst sjálfur upp á veg en þurfti að bíða í um 10 mínútur þar til vegfarandi stöðvaði og kom til aðstoðar. Á þeim tíma óku fjölmargir bílar framhjá þrátt fyrir að ökumaðurinn hafi verið sýnilega slasaður og þurft aðstoð. Sagt er frá þessu á Facebook síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra og er þar biðlað til fólks, í tilvikum sem þessum, að stoppa bíla sína, veita aðstoð eins og hægt er og kalla strax eftir aðstoð viðbragðsaðila á vettvang.

„Enginn veit hver er næstur og ekkert okkur vill að við, börnin okkar, einhver nákomin eða í raun hver sem er þurfi að upplifa það að ekið sé framhjá viðkomandi án þess að veita aðstoð og kalla til viðbragðsaðila í tilfellum sem þessum. Slíkt er með öllu óboðlegt. Lögreglan hvetur ökumenn til að sína tillitssemi í umferðinni, haga akstri eftir aðstæðum og koma fram við aðra í umferðinni eins og þú vilt láta aðra koma fram við þig,“ segir á Facebook síðunni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga