Fréttir | 11. nóvember 2019 - kl. 21:19
Tónlistarveisla í tilefni af 10 ára afmæli kirkjuorgelsins

Blásið verður til tónlistarveislu í Blönduóskirkju sunnudaginn 17. nóvember í tilefni af því að tíu ár eru liðin síðan orgel kirkjunnar var vígt. Fjöldi listamanna ætlar að stíga á stokk og syngja eða leika á hljóðfæri með orgelinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 18 og er enginn aðgangseyrir en þar sem um styrktartónleika er að ræða verður söfnunarkassi á staðnum. Sagt er frá þessu í Feyki sem kom út í síðustu viku.

Í blaðinu er rætt við Eyþór Franzson, organista Blönduóskirkju og segir hann að sú hugmynd að halda tónleika hafi kviknað hjá honum er hann áttaði sig á því, eftir þau fjögur ár sem hann hafi starfað við Blönduóskirkju, að tíu ár eru liðin síðan kirkjuorgelið var vígt en það var 15. nóvember 2009. Á þeim áratug hefur það þjónað í messum, jarðarförum, tónleikum, brúðkaupum, aðventuhátíðum og fleiri athöfnum.

Þeir sem koma fram á tónleikunum standa orgelinu næst, þ.e. organistinn sjálfur, Eyþór, kirkjukórinn og Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Skarphéðinn Einarsson ætlar að leika á trompet og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir, organisti í Hólaneskirkju á Skagastönd á flautu. Að auki ætlar Nína Hallgrímsdóttir að syngja á tónleikunum.

Sjá nánari umfjöllun í Feyki.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga