Fréttir | 20. nóvember 2019 - kl. 08:59
Hald lagt á skotvopn og afla rjúpnaveiðimanna

Lögreglan á Norðurlandi vestra lagði hald á skotvopn og afla tveggja rjúpnaveiðimanna um síðustu helgi sem voru við veiðar án gildra veiðileyfakorta. Lögreglan hefur haldið uppi öflugu eftirliti með rjúpnaveiðum eins og jafnan. Kannað hefur verið með réttindi veiðimanna, skotvopn og fleira. Um síðustu helgi rætti hún við marga veiðimenn sem voru að koma af veiðum og reyndust flestir þeirra vera með öll sín mál í lagi. Á Facebook síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra eru veiðimenn hvattir til að gæta þess að öll leyfi séu í lagi.

Í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum frá 1994, segir svo í 11.gr.:

"Allir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum, músum og minkum, skulu afla sér veiðikorts gegn gjaldi, sbr. 3. mgr. Veiðikort þarf ekki til eggjatöku. Umhverfisstofnun annast útgáfu veiðikorta. Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, gildistímabils og þeirra tegunda sem viðkomandi hefur heimild til að veiða. Korthafi skal ætíð bera kortið á sér á veiðum. Hann skal framvísa því ef óskað er. Jafnframt segir í 21.gr. sömu laga:

Brot gegn lögum þessum og reglum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga