Pistlar | 20. nóvember 2019 - kl. 08:03
Umvafinn englum
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Fyrir fáeinum misserum hafði ég einu sinni sem oftar á undanförnum sjö árum verið beðinn um að annast messu eða guðsþjónustu í Fríkirkjunni við tjörnina í Reykjavík. Þar sem stundin var í tengslum við allra heilagra messu var tekið sérstaklega fram að minnast ætti látinna. Þeirra sem látist hefðu á árinu en jafnframt var guðsþjónustan einnig ætluð þeim sem bara einhvern tíma hefðu misst ástvin og vissu því hvað það væri að syrgja og sakna. 

Mæting þótti bara góð og á svæðinu var bæði fólk sem ég þekkti vel, kannaðist við og fólk sem ég hafði aldrei séð og vissi því ekkert um.

Þarna var fólk sem svo nýlega hafði misst ástvin að útför hafði ekki enn farið fram. Þarna var líka kona sem hafði misst ungan eiginmann og fjölskylduföður af slysförum fyrir nákvæmlega tveimur árum upp á dag. Og fjölskylda sem hafði misst unga eiginkonu, móður, dóttur og systur úr krabbameini fimm árum áður upp á dag.

Samankomið var fólk á öllum aldri sem hafði misst sína nánustu, foreldra, maka, systkini og börn úr erfiðum sjúkdómum af slysförum og svo framvegis.

Það var hreint ekki auðvelt að ganga inn gólfið undir fyrstu tónunum, snúa sér síðan við og taka til við að ávarpa blessað fólkið sem þarna var saman komið. Augnablikið var eðlilega mjög viðkvæmt.

Allt gekk þó vel. Tónlistin var yndisleg og að lokinni minni tölu, ræðu eða predikun, sagði ég viðstöddum að gott væri að tendra lítið ljós til minningar um látinn ástvin og þannig biðja Guð um að taka við bænum okkar. Ég sagði að hann vildi okkur vel og heyrði bænir. Það væri bara þannig.

Að þeim orðum sögðum byrjaði Gunnar Gunnarsson, vinur minn, Fríkirkjubandið og sönghópurinn, Við tjörnina að spila og syngja, „Heyr mína bæn, mildasti blær, berðu kveðju mína yfir höf.“ Lag sem flestir Íslendingar þekkja, fyrst flutt á íslensku af Ellý Vilhjálms. Fólk tók þá að streyma upp að kerta altarinu í tugatali til þess að tendra ljós til minningar um látinn ástvin undir þessum fallegu tónum.

Að lokinni messunni var mér þakkað svo innilega fyrir stundina og falleg orð látin falla með hlýjum faðmlögum sem var gott að fá og gefa.

Sannarlega aldrei þakklátara og meira gefandi en að fá að standa í veikum mætti og gefa af sér til fólks í svona stöðu.

Ég hafði óskað eftir því við yngsta son minn, þá 22 ára nemanda í Sjúkráþjálfun við HÍ að hann kæmi með mér og yrði mér til halds og trausts svona ef ske kynni að það liði yfir mig við altarið.

Þegar við feðgar vorum svo sestir upp í bíl að lokinni þessari heilögu stund þar sem svo mikið góður andi og þakklæti sveif yfir og réð ríkjum, heyrum við sungið og spilað í útvarpinu. „Ég er umvafin englum, aldrei ein, aldrei ein.“

Sonurinn leit þá á mig og segir, „Pabbi, hvað er þetta eiginlega? Pantaðir þú þetta lag eða hvað?“

Og ég svaraði: „Það mætti að vísu halda það, en nei, þetta er nærvera heilags anda, skal ég segja þér. Hér er heilagur andi Guðs að minna okkur á sig eftir þessa viðkvæmu stund sem ég gaf alla mína krafta og orku í. Hann sem ber okkur í örmum sér jafnt í lífi sem dauða.“

Og við sátum hljóðir og hugsandi á leiðinni úr miðborginni á meðan þetta fallega lag, sungið af Guðrúnu Gunnarsdóttur við aldeilis laglegan texta, Valgeirs Skagfjörð, spilaðist.

Sannarlega ekki í fyrsta skipti sem ég upplifi eitthvað álíka á ögurstundu. Dýrð sé Guði.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga