Unnur Valborg og Hólmfríður. Ljósm: ssnv.is
Unnur Valborg og Hólmfríður. Ljósm: ssnv.is
Fréttir | 20. nóvember 2019 - kl. 15:48
SSNV fundaði með stýrihópi um byggðamál

Fulltrúar úr stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál funduðu í gær á Hvammstanga með stjórn og framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Fundurinn er liður í fundaferð hópsins um landið til að ræða við stjórnir landshlutasamtaka um sóknaráætlanir og framgang þeirra í héraði. Á vef SSNV kemur fram að fulltrúar stýrihópsins hafi fengið kynningu á nýrri Sóknaráætlun Norðurlands vestra sem samþykkt var á dögunum, helstu áherslum hennar og verkefnum sem framundan eru. Farið var yfir mælikvarða áætlunarinnar og hvernig árangur hennar verður gerður sýnilegur í sérstöku mælaborði sem verið er að vinna að, sem og fleira sem málefninu tengist.

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál hefur það hlutverk að efla samhæfingu innan stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þeim málaflokki. Hópurinn vinnur út frá þeirri skilgreiningu að byggðamál nái yfir öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á búsetuskilyrði í landshlutunum. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta svo fátt eitt sé talið.

Á myndinni eru Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV og Hólmfríður Sveinsdóttir, formaður stýrihópsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga