Leppalúði heilsar. Ljósm: komedia.is
Leppalúði heilsar. Ljósm: komedia.is
Fréttir | 22. nóvember 2019 - kl. 11:55
Leppalúði heimsækir líka Blönduós

Leppalúði kann vel við sig í Húnavatnssýslum en í vikunni heimsótti hann bæði Hvammstanga og Skagaströnd. Í næstu viku ætlar hann að heimsækja Blönduósinga. Það er Kómedíuleikhúsið sem hefur veg og vanda af Leppalúða sem er sprellfjörugt og alíslenskt jólaleikrit. Fjallar það um hinn alltof gleymda mann Grýlu og föður jólasveinanna þrettán. Velt er upp spurningum eins og hver Leppalúði sé eiginlega, hvort hann tali mannamál og síðast en ekki síst, hvort hann sé í alvörunni til.

Höfundur verksins og leikari er Elfar Logi Hannesson. Um búninga sér Alda S. Sigurðardóttir, tæknilegar lausnir og galdrar eru í höndum Kristjáns Gunnarssonar og leikmynd og gríma eru sköpunarverk Marsibilar G. Kristjánsdóttur sem einnig er leikstjóri.

Leikritið Leppalúði verður sýnt í Félagsheimilinu á Blönduósi miðvikudaginn 27. nóvember og hefst sýningin klukkan 17:30. Miða má panta í síma 891 7025 og einnig er miðasala á staðnum á sýningardegi. Miðaverð er kr. 2.500.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga