Mynd af heimasíðu Blönduskóla.
Mynd af heimasíðu Blönduskóla.
Fréttir | 26. nóvember 2019 - kl. 21:07
Erasmus verkefni í Blönduskóla

Dagana 5.- 9. nóvember komu góðir gestir í Blönduskóla vegna Erasmus+ verkefnis sem skólinn tekur þátt í. Fengu þeir að fylgjast með skólastarfinu og að taka virkan þátt í kennslu. Sonja Suska umsjónarkennari 9. og 10. bekkjar hefur stýrt verkefninu fyrir hönd Blönduskóla en með henni í verkefninu eru Lilja Árnadóttir, náttúrufræðikennari og Þuríður Þorláksdóttir, aðstoðarskólastjóri.

Þetta Erasmus verkefni kallast Brains 4 Europe og er markmiðið að kenna unglingum hvernig heilinn virkar og hvernig við getum nýtt hann til þess að læra betur og iðka meira gagnrýna hugsun. Verkefnið er þriggja ára samstarf milli sex landa og stjórnað af Háskóla á Spáni en það er heilaskurðlæknir sem stendur á bak við verkefnið.  

Verkefnið hófst fyrir ári síðan og hafa stjórnendur og kennarar farið bæði til Istanbúl og Medína á Spáni til að undirbúa kennsluefni en þetta er í fyrsta skipti sem hópurinn hittir nemendur. Það eru eingöngu stjórnendur og kennarar sem ferðast á milli landa en nemendur sem hafa valið verkefnið sem valgrein vinna saman á netinu, í gegnum Skype og Moodle, þar sem þau geta fylgst með hinum, sent vídeó fram og til baka o.fl. er viðkemur verkefninu.

Verkefnið er rétt að byrja og hafa fimm nemendur í Blönduskóla ákveðið að taka þátt í þessu verkefni en verkefnið byrjar ekki af alvöru fyrr en í janúar svo enn geta nemendur tekið þátt. Þessi heimsókn var hugsuð sem smá tilraun, gerð í enskutíma hjá 9. og 10. bekk þar sem rætt væri um gagnrýna hugsun en ákveðið var að taka fyrir falsfréttir. Nemendur stóðu sig með prýði og tóku virkan þátt í umræðunum, voru ófeimnir og málefnalegir en allt fór fram á enskri tungu.

Á næsta ári verður svo hafist handa við að vinna með heilann sjálfan. Þeir nemendur sem taka þátt eru í 9. og 10. bekk og er verkefnið valfag eins og áður hefur komið fram, kennt verður í lotum og sú fyrsta tekur á því hvernig heilinn virkar, hvað getur gerst ef heilinn virkar ekki eins og hann á að virka, hvernig við getum hjálpað og hvaða lausnir eru til. Ein lotan snýst svo um það hvernig við getum nýtt okkur þetta allt til að læra og auka vitneskju okkar um heilann. Allt verður þetta svo tekið saman að endingu og niðurstöður verkefnisins settar á vefsíðu sem verður aðgengileg öllum skólum í Evrópu. Verkefnið miðar að því að búa til efni sem nýtist áfram í kennslu.

Hópurinn mun næst hittast í mars í Rúmeníu en þá ætti að vera búið að kenna fyrstu lotuna og niðurstöður teknar saman. Það verður því gaman að fylgjast áfram með þessu flotta verkefni en verkefnið hefur nú þegar vakið eftirtekt og fékk skólinn heimsókn frá N4 þar sem tekið var viðtal við Sonju og þá nemendur sem eru í verkefninu.

Fréttin er fengin af heimasíðu Blönduskóla www.blonduskoli.is.

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga