Fréttir | 28. nóvember 2019 - kl. 08:28
Eldvarnarvika í Húnaþingi vestra

Brunavarnir Húnaþings vestra heimsækir 3. bekk grunnskólans og elsta árgang leikskólans í sveitarfélaginu árlega. Heimsóknin er hluti af Eldvarnarviku, sem haldin er í lok nóvember ár hvert og tileinkuð er eldvörnum heimilanna, í samstarfi við Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna ásamt styrktaraðilum.

Í leikskólanum fá börnin kynningu á brunavörnum leikskólans og helstu hættum og að því loknu aðstoða börnin slökkviliðsmenn við að skoða hvar ÚT-ljós, reykskynjarar og slökkvitæki eru staðsett. Fá þau viðurkenningarskjal frá slökkviliðinu því til staðfestingar ásamt verkefnamöppu, plakati og bókamerki.

Í grunnskólanum er sýnd ný teiknimynd frá LSS ásamt því að farið er yfir eldvarnir heimilanna eins og slökkvitæki, reykskynjara, flóttaleiðir og þess háttar. Það er reynsla slökkviliðsmanna að átta ára börn eru mjög móttækileg fyrir fræðslu um eldvarnir og þekkja þeir fjölmörg dæmi um að þau hafi tekist að hafa vit fyrir foreldrum sínum um eldvarnir heimilisins eftir að hafa fengið slökkviliðið sitt í heimsókn.

Börnin fá fræðslu um eldvarnarbúnað, helstu hættur og hvað ber að gera ef eldur kemur upp á heimili þeirra, en auðvitað fyrst og fremst hvað gera skal til að koma í veg fyrir óhöpp eins og eldsvoða. Að þessu loknu fá börnin bók með eldvarnargetraun sem umsjónarkennari tekur saman og skilar inn, ásamt ýmsum varningi s.s. vasaljós, endurskinsmerki, plakat og fleira til minningar um komu slökkviliðsins.

Sagt er frá þessu á vef Húnaþings vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga