Fréttir | 02. desember 2019 - kl. 14:49
Mikil eftirspurn eftir styrkjum úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra

Alls bárust 113 umsóknir til Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra en umsóknarfrestur rann út 20. nóvember síðastliðinn. Óskað er eftir samtals 170 milljónum króna í styrki en til úthlutunar eru rúma 70 milljónir og nemur umframeftirspurnin því um 143%. Veittir eru styrkir til atvinnuþróunar og nýsköpunar, verkefnastyrkir til menningarstarfs og stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstarfs.

Á vef SSNV kemur fram að nú séu umsóknirnar til umfjöllunar hjá úthlutunarnefnd og fagráðum og að búast megi við að svör berist umsækjendum um miðjan janúar.

Tilgangur Uppbyggingarsjóðs er að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni á Norðurlandi vestra. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og eru umsóknir metnar út frá þeim markmiðum og áherslum sem koma fram í Sóknaráætlun Norðurlands vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga