Af vef Veðurstofunnar www.vedur.is
Af vef Veðurstofunnar www.vedur.is
Fréttir | 09. desember 2019 - kl. 18:17
Óvissustig almannavarna vegna aftakaveðurs
Rauð viðvörun fyrir Strandir og Norðurland vestra

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi á landinu á morgun þar sem spáð er aftakaveðri. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands. Viðvörunarstig hefur verið færð úr appelsínugulu yfir í rautt annað kvöld fyrir Strandir og Norðurland vestra og er þetta í fyrsta sinn sem viðvörun er færð upp í rautt. Annars staðar á landinu er gul eða appelsínugul viðvörun.

Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið að því segir á vef almannavarna. Þar er fólk hvatt til að fylgjast með frekari upplýsingum frá almannavörnum á Facebook, um veðurspá á www.vedur.is, færð á vegum www.vegagerdin og upplýsingum á textavarpinu, www.textavarp.is.

Spáð er norðaustan og síðan norðan roki á Ströndum og Norðurlandi vestra á morgun, og síðar ofsaveðri, (23 til 30 m/s) með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m. ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga