Fréttir | 10. desember 2019 - kl. 07:28
Bækur frá Espólín forlagi sem tengjast Húnavatnssýslum

Út er komnar tvær bækur frá Espólín forlagi sem báðar tengjast Húnaþingi; Uppskriftir stríðsáranna og Þar sem skömmin skellur. Fyrri bókin eru öðruvísi matreiðslubók þar sem má finna íslenskar, einfaldar, ódýrar, gamlar og góðar uppskriftir sem voru allsráðandi í eldhúsum landsins eftir stríð. Uppskriftirnar eru sóttar í smiðju systranna Sigurlaugar og Guðbjargar Sveinsdætra frá Tjörn á Skaga og handskrifaðar matreiðslubækur þeirra. Þær stunduðu nám við Kvennaskólann á Blönduósi á stríðsárunum.

Seinni bókin, Þar sem skömmin skellur, er saga Skárastaðamálanna í Austurárdal í Vestur-Húnavatnssýslu. Skárastaðamálið er 160 ára gamalt sakamál. Ungabarn deyr voveiflega og annað barn kemur ekki í ljós hvernig sem leitað er. Reglur samfélagsins eru brotnar og yfirvöld skerast í leikinn. Fleiri brot koma til kasta sýslumanns, málin gerast snúin og tímafrek í réttarkerfinu. Þungir dómar falla. Í bókinni er skyggnst í dómabækur og fleiri samtímaskjöl, framburði vitna gerð skil og lesið í eyður. Að lokum er fylgst með sakborningum eftir að dómar eru kveðnir upp. Skárastaðamálið hefur lengi legið í þagnargildi, nú er þögnin rofin. Höfundur bókar er Anna Dóra Antonsdóttir sagnfræðingur.

Bækurnar fást hjá Eymundsson og í Húnabúð á Blönduósi. Uppskriftirnar fást einnig í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi. Sjá nánar á vef Espólín forlags.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga