Skjáskot af ruv.is
Skjáskot af ruv.is
Fréttir | 09. desember 2019 - kl. 21:05
Búast má við víðtækum vegalokunum

Lögreglan á Norðurlandi vestra biðlar til fólks að halda kyrru fyrir þar sem ekkert ferðaveður verður á morgun. Segir hún að búast megi við víðtækum vegalokunum í umdæminu strax í fyrramálið. Þá bendir lögreglan fólki á að huga sérstaklega vel að öllum lausamunum utandyra, svo sem ruslatunnum og öðru sem gæti ollið tjóni eða skaða.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir: „Gangi veðurspá að fullu eftir, þarf fólk að verða meðvitað um að það getur reynst miklum erfiðleikum bundið fyrir viðbragðsaðila að komast á vettvang og getur tekið langan tíma. Það þarf samt að sjálfsögðu að tilkynna öll tjón strax. Minnum á neyðarnúmerið: 1-1-2. Hjálpumst að og látum fréttirnar berast. Fylgist vel með fréttum og eins og fyrr segir haldið kyrru fyrir og verið heima.“

Einnig er bent á að sjávarmál verði í hærra lagi og því eru smábátaeigendur beðnir um að huga að bátum sínum og festa þá vel. Allt skólahald í umdæminu, leik-, grunn- og framhaldsskólar, falla niður og öll íþróttamannvirki verða lokuð. Rafmagn gæti einnig raskast vegna veðurs.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga