Fréttir | 10. desember 2019 - kl. 16:32
Ákvörðun á hækkun almannavarna yfir á hættustig vegna aftakaveðurs

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið í samráði við lögreglustjórana á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra að hækka viðbúnaðarstig af óvissustigi yfir á hættustig almannavarna vegna óveðurs í samráði við Veðurstofu Íslands. Þetta kemur fram á almannavarnir.is. Þar kemur fram að Almannavarnir áttu stöðufund með Veðurstofu Íslands og kom fram að veðrið væri ekki búið að ná hámarki en farið að hafa veruleg áhrif á samfélög þessara lögregluumdæma. Varðandi Vestfirði er aðallega um að ræða Strandir í takt við rauða viðvörun Veðurstofunnar. Búast má við áframhaldandi óveðri og ófærð auk þess sem er stórstreymt er þessa daganna. Við þessar aðstæður hefur myndast ísing á raflínum með tilfallandi rafmagnsleysi.

Skilgreining á hættustigi almannavarna:

Ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga