Fréttir | Sameining A-Hún | 14. desember 2019 - kl. 11:57
Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps samþykkt

Fjárhagsáætlanir Húnavatnshrepps fyrir árið 2020 og árin 2021-2023 voru samþykktar á sveitarstjórnarfundi í gær. Í fundargerð kemur fram að við gerð fjárhagsáætlunar 2020 hafi verið lögð áhersla á aðhald í rekstri, líkt og undanfarin ár. Tekjur eru áætlaðar 502,3 milljónir og gjöld 481,8 milljónir. Tekjuafgangur fyrir fjármagnsliði er áætlaður 20,5 milljónir. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 15,9 milljónir og rekstrarniðurstaðan því áætluð með 4,5 milljóna króna tekjuafgangi. Skuldahlutfallið, þ.e. hlutfall af skatttekjum og skuldum er áætlað 69,5% en má samkvæmt ákvæðum fjármálareglna hæst vera 150%.

Í fjárhagsáætluninni eru álagningaprósentur fasteignagjalda óbreyttar frá fyrra ári. Gjaldskrár hækka almennt í samræmi við verðlagsbreytingar. Á næsta ári er gert ráð fyrir eignfærðum fjárfestingum fyrir rúmlega 100 milljónir króna. Auk hefðbundinna viðhaldsframkvæmda er stefnt á að endurnýja búningsklefa og gervigras á sparkvelli á Húnavöllum og koma fyrir körfuboltavelli með undirefni úr gerviefni. Stækka á lóð við leikskóla og fjölga leiktækjum þar og við grunnskólann. Einnig á að koma fyrir lyftur í anddyri grunnskólans. Þá verða allt að 23 milljónir settar í viðhald rétta og girðinga. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið taki allt að 85 milljón króna lán fyrir viðhaldsframkvæmdum á næsta ári.

Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps má sjá hér.

Fulltrúar E-lista í sveitarstjórn sátu hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar. Þeir létu færa til bókar að þeim finnst tugmilljóna framkvæmdir og lántökur ekki ábyrg fjármálastjórnun. Og að meirihlutinn verji útgjaldastefnuna með því að segja að sameining sé á næstu grösum og því sé rétt að skuldsetja sveitarfélagið enn frekar. Þessum málflutningi mótmælti meirihlutinn sem telur að mikilvægt sé að viðhalda og verja eignir sveitarfélagsins og þá sérstaklega skólahúsnæðið til hagsbóta og öryggis fyrir nemendur, starfsfólk og annarra íbúa sveitarfélagsins. Sagði meirihlutinn að gott og markvisst viðhald eigna auki að sjálfsögðu verðgildi þeirra.

Í þriggja ára áætlun fyrir árin 2021-2023 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu öll árin.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga