Við Blönduósflugvöll. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Við Blönduósflugvöll. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 11. janúar 2020 - kl. 10:41
Formaður byggðaráðs gagnrýnir Isavia

Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar, gagnrýnir Isavia í færslu á Facebook. Gagnrýnin kemur í kjölfar rútuslyssins nærri Blönduósi í gær. Þá lenti þyrla Landhelgisgæslunnar á flugvellinum á Blönduósi og flutti þrjá slasaða háskólanema til Reykjavíkur. "Enn og aftur kemur flugvöllurinn á Blönduósi að góðum notum, flugvöllurinn sem Isavia kærir sig ekki um, flugvöllurinn sem er við þjóðveg 1, flugvöllurinn sem er sá eini milli fjallveganna Holtavörðuheiði / Þverárfjall - Vatnsskarð, flugvöllurinn þar sem Isavia neitar að prófa og votta aðflugshallaljósin."

Guðmundur Haukur segir einnig í færslunni að flugvöllurinn á Blönduósi skipti máli og hann sé nauðsynlegur öllum sem keyra um þjóðveg 1 á Norðurlandi. "Á þessi flugvöllur kannski eftir að bjarga lífi þínu eða einhvers sem er þér kær? Að minnsta kosti ekki ef Isavia tekst ætlunarverkið að láta hann drabbast endanlega niður. Það var gott að heyra í þyrlunni í kvöld og vita að þeir sem þess þurftu komst suður á Landspítala," segir Guðmundur Haukur í færslu á Facebook.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga