Halldór Gunnar
Halldór Gunnar
Fréttir | 13. janúar 2020 - kl. 13:33
Íbúar ráði för í sameiningarmálum

Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar, er í viðtali í Morgunblaðinu í dag og er rætt við hann um sameiningu sveitarfélaga. Hann segir að sameining sveitarfélaga þurfi að skapa byggðunum ný tækifæri til vaxtar og sóknar og að íbúarnir sjálfir verði að ráða för í sameiningarmálum. „Engin málefnaleg rök liggja fyrir því að rekstur sveitarfélaga verði til muna skilvirkari eða þjónusta betri séu íbúarnir 1.000 eða fleiri,“ segir Halldór.

Vísar hann þá til nýlegrar bókunar sveitarstjórnar Skagastrandar þar sem Alþingi er hvatt til þess að hafna tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar sveitarstjórnarráðherra um það sem er kallað lögþvinguð sameining sveitarfélaga. „Enginn sérfræðingur er þess umkominn að skera úr um hver sé hagkvæmasta stærð sveitarfélaga,“ segir Halldór og nefnir að sumri segi að hagkvæmnin náist fyrst þegar íbúar eru orðnir 8.000.

Halldór bendir á í viðtalinu að sveitarfélög á svæðinu hafi verið sameinuð og að það hafi ekki komið í veg fyrir undanhald. Sú lausn ein og sér sé því ekki algild. Bendir hann á að Skagaströnd sé vel sett með alla innviði. „Ég er ekki á móti sameiningu sveitarfélaga ef hún er á forsendum íbúanna sjálfra. Sú staðreynd að nú búa einungis 16% íbúa landsins utan áhrifasvæðis höfuðborgarsvæðisins segir okkur að sú byggðastefna sem rekin hefur verið í landinu virkar ekki,“ segir Halldór í Morgunblaðinu í dag.

Sjá nánar viðtalið við Halldór Gunnar í Morgunblaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga