Fréttir | 14. janúar 2020 - kl. 07:12
Blönduósflugvöllur verði skilgreindur fyrir sjúkraflug

Í samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra samþykkti í júní í fyrra er lögð áhersla á að Blönduósflugvöllur verði skilgreindur fyrir sjúkraflug og tryggt að hann geti þjónað flugi með viðunandi hætti. „Staðsetning flugvallarins rétt við þjóðveg 1 er einnig heppileg ef kemur til hópslysa eða annarra alvarlegra óhappa í Húnavatnssýslum,“ segir í áætluninni, en hún á að nýtast sem stuðningur við forgangsröðun verkefna ríkis og stofnana ríkisins.

Í samgöngu- og innviðaáætluninni er kafli um flugsamgöngur og er þar fjallað um Alexandersflugvöll á Sauðárkróki og Blönduósflugvöll. Þar segir m.a. að mikilvægt sé fyrir íbúa Húnavatnssýslna að hafa möguleika á sjúkraflugi. Mikil skerðing heilbrigðisþjónustu í landshlutanum á undanförnum árum hafi gert það að verkum að öll bráðatilfelli þurfi að meðhöndla utan landshlutans. Til að nýta þá opinberu þjónustu sem íbúar svæðisins eigi sama rétt á og aðrir íbúar landsins sé um fjallvegi að fara og geti það verið torvelt, sérstaklega á vetrum. Þess vegna sé mikilvægt að tryggt verði að Blönduósflugvöllur geti þjónað sjúkraflugi með viðunandi hætti.

Með útgáfu áætlunarinnar vildu sveitarfélög á Norðurlandi vestra leggja sitt af mörkum til að auðvelda og flýta fyrir ákvarðanatöku og þar með brýnum framkvæmdum við samgöngu- og innviðauppbyggingu í landshlutanum. Vonuðust samtökin eftir því að áætlunin yrði stuðningur við forgangsröðun verkefna ríkis og stofnana ríkisins.

Lesa má samgöngu- innviðaáætlunina hér.

Tengdar fréttir:

Bentu ráðuneytinu á mikilvægi Blönduósflugvallar í september

Hver ber ábyrgð á viðhaldsleysi Blönduósflugvallar?

Ráðuneytið ræður, ekki Isavia

Formaður byggðaráðs gagnrýnir Isavia

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga