Fréttir | 20. janúar 2020 - kl. 15:34
Stafræn leið til markaðar - Digi2Market

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra leitar að tíu fyrirtækjum til að taka þátt í Norðurslóðaverkefninu Digi2Market. Verkefnið snýst að mestu leyti um heildstæða stafræna tækni, 360 gráðu myndbönd, aukinn raunveruleika og sýndarveruleika og hvernig nýta megi þessa tækni í markaðssetningu. Markmið verkefnisins er að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum á jaðarsvæðum að auka markaðshlutdeild sína með stafrænni tækni.

Með stafrænni tækni er hægt að koma vörumerkinu og sögu fyrirtækisins áleiðis til viðskiptavinanna og aðlaga það að markaðsaðgerðum fyrirtækisins. Þessi tækni getur einnig gefið fólki möguleika á að prófa vöru/þjónustu áður en kaup fara fram. Verkefninu er ætlað að taka á ýmsum áskorunum sem fyrirtæki á jaðarsvæðum kunna jafnan að glíma við, svo sem smæð markaðar, fjarlægð frá markaði og einangrun.

Sjá nánar um verkefnið og hvernig fyrirtæki passa inn í það hér.

Þátttökugjald í verkefnið er kr. 50.000 en áætlað er að virði ráðgjafar/efnisvinnu á hvert fyrirtæki sé um 400-500 þúsund.

SSNV hefur samið við Tjarnargötuna um ráðgjöf og efnisvinnu. Tjarnargatan muni sinna hugmyndavinnu, hönnun, framleiðslu, birtingarráðgjöf og eftirfylgni vegna mynd- hljóð-, prent- og vefefnis fyrir þátttakendur í verkefninu. Skráningarfrestur er til og með 22. janúar 2020.

Frekari upplýsingar ásamt skráningu í verkefnið er hjá Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur, atvinnuráðgjafa SSNV, á netfangið sveinbjorg@ssnv.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga