Frá Húnavöllum.
Frá Húnavöllum.
Fréttir | 23. janúar 2020 - kl. 13:19
Húnavatnshreppur frestaði afgreiðslu á kauptilboði Brunavarna A-Hún.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps frestaði í gær afgreiðslu á kauptilboði og veitingu á einfaldri ábyrgð vegna fyrirhugaðra kaupa og lántöku Brunavarna Austur-Húnvetninga á fasteign að Efstubraut 2 á Blönduósi. Blönduósbær samþykkti kauptilboðið nýverið og að veita ábyrgð. Í fundargerð sveitarstjórnar Húnavatnshrepps frá því í gær kemur fram að núgildandi samþykktir Byggðasamlags um brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu sé ástæða frestunarinnar. Samkvæmt þeim sé stjórn Brunavarna A-Hún. ekki rétt kjörin og nauðsynlegt sé að breyta þeim áður en lengra er haldið.

Sveitarstjórn samþykkti því samhljóða að fresta málinu þar til samkomulag næst um ásættanlegar breytingar á samþykktum Byggðasamlagsins. Byggðasamlag um brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu er í eigu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps.

Brunavarnir Austur-Húnvetninga gerði kauptilboð í fasteign að Efstubraut 2 sem er í eigu Léttitækni ehf. Eignin er 486 fermetrar að stærð. Kauptilboðið var gert með fyrirvara um fjármögnun og staðfestingu stjórnar og eigenda.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga