Norðurljós yfir Vatnsdalsfjalli. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Norðurljós yfir Vatnsdalsfjalli. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Tilkynningar | 26. janúar 2020 - kl. 10:01
Fundur í Hnitbjörgum 29. janúar
Frá Sögufélaginu Húnvetningi
Sögufélagið stendur fyrir fundi í sal FEB í Hnitbjörgum miðvikudaginn 29. janúar klukkan 14. Þar verða þrír fyrirlesarar:
  1. Jóhanna Erla Pálmadóttir fjallar um frænda sinn Jón Kaldal ljósmyndara og systkini hans.
  2. Jóhannes Torfason tínir úr kýrhausnum fróðleiksmola frá árum Þorsteins Matthíassonar skólastjóra á Blönduósi, en á þeim árum hófst einnig útgáfa ársritsins Húnavöku sem telur brátt 60 árganga.
  3. Jón Benedikt Björnsson, flytur okkur fyrirlestur sinn: Afi á Húnsstöðum.
  4. Kaffiveitingar og kleinur.

Sögufélagið Húnvetningur stendur fyrir þessum fundi í samstarfi við FEB í A-Hún en í vor verða 82 ár síðan félagið var stofnað.

Á fyrstu áratugum félagsins kom út bókaflokkurinn Svipir og sagnir í fimm bindum. Annað stórvirki sem skreytir sögu félagsins er útgáfa á Ættum Austur-Húnvetninga í fjórum bindum, en þá stýrði Elínborg Jónsdóttir kennari á Skagaströnd félaginu og mögnuðu samstarfi með fleiri sögufélagsmönnum sem enn starfa með félaginu.

Útgáfa á söguritinu Húnaþing – í þrem bindum – var verkefni félagsins í samstarfi við fleiri félagasamtök í allri sýslunni. Fleiri rit, s.s. Brandsstaðaannáll og Saga búnaðarfélaganna í Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppum voru einnig gefin út á fyrstu árum Sögufélagsins. Samstarf við Húnvetningafélagið í Reykjavík hefur alla tíð verið náið og útgáfumál félagsins hafa oft verið nátengd því starfi.

Síðustu tíu ár hefur félagið haldið árlega fundi, aðalfund að vori og stundum svona 1-2 að auki og fengið til þeirra fyrirlesara einn eða fleiri. Síðustu árin hefur félagið einnig tekið þátt í fundaröð í Húnabúð ásamt félaginu í Reykavík og var hákarlinn þema síðastliðinn vetur. Það val var tilkomið vegna áhuga félaganna á liðveislu við Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði. Hákarlaskipið Ófeigur norðan úr Ófeigsfirði á Ströndum er þar varðveitt.

Meira til fróðleiks:
Jón Kaldal í wikipedíu: https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Kaldal?fbclid=IwAR0PEVHat-qYm8jnjr6i3g6JfGKU1uaLKj5H-w3FSYEER2HqYNFmIFdizdM
Sögukorn um Jón Leifs og fleiri Jóna: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16226
Byggðasafnið: http://reykjasafn.is/

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga