Fréttir | 28. janúar 2020 - kl. 15:31
NFVH harmar tjón bænda vegna óveðursins

Stjórn Nautgriparæktarfélags Vestur-Húnavatnssýslu harmar það tjón sem bændur urðu fyrir í rafmagnsleysinu sem varð vegna óveðursins í desember. Telur stjórnin nauðsynlegt að taka saman kostnaðinn sem af því hlaust og hlúa að bændum. Þetta kemur fram í bókun stjórnar sem kynnt var á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra í gær. Þar segir að mikilvægt sé að Bændasamtök Íslands og sveitarfélögin þrýsti á stjórnvöld um að finna fjármagn til að koma til móts við þann fjárhagslega skaða sem bændur urðu fyrir.

Einnig sé nauðsynlegt að draga lærdóm af ástandinu og leita leiða til að koma í veg fyrir að slíkt tjón skapist aftur.

Byggðarráðið tók undir bókunina á fundi sínum í gær og vinnur sveitarstjórn Húnaþings vestra nú að greiningu á afleiðingum óveðursins og aðgerðum í kjölfarið í samvinnu við Búnaðarsamband Húnaþings og stranda. Sveitarstjórn hefur einnig verið í samtali við fulltrúa ríkisins vegna tjóns sem varð af völdum óveðursins og mun fylgja því eftir á næstu viku, eins og segir í fundargerð byggðarráðs frá í gær.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga