Fréttir | 29. janúar 2020 - kl. 14:02
Blönduósbær vill verða Heilsueflandi samfélag

Blönduósbær ætlar að verða Heilsueflandi samfélag og hefur hafið ferlið að því. Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök og fleiri aðila. Meginmarkmiðið er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Málefnið var kynnt á fundi menningar-, tómstunda- og íþróttanefndar í gær og fagnar nefndin þessu jákvæða skrefi, eins og það er orðað í fundargerð.

Á vef Embætti landlæknis segir að sveitarfélög hafi sjálf frumkvæði að því að gerast Heilsueflandi samfélag. Skilyrðin fyrir þátttöku eru að bæjar-/sveitarstjóri skrifi undir umsókn um þátttöku, skipaður sé þverfaglegur stýrihópur fyrir starfið sem tryggir aðkomu lykilhagsmunaaðila að því og sérstakur tengiliður er tilnefndur. Með undirskrift samnings um Heilsueflandi samfélag einsetja sveitarfélög sér að vinna markvisst lýðheilsustarf, í samræmi við markmið og leiðarljós Heilsueflandi samfélags með stuðningi frá Embætti landlæknis og öðrum sem að starfinu koma. Samkvæmt vefnum hefur ekkert sveitarfélag á Norðurlandi vestra skrifað undir samstarfssamning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga