Fréttir | 29. janúar 2020 - kl. 15:14
Handbendi frumsýnir nýtt brúðuverk

Brúðuleikhúsið Handbendi frumsýnir brúðuverkið Sæhjarta í Félagsheimilinu á Hvammstanga 11. febrúar næstkomandi klukkan 20. Þetta nýja verk er einleikur fyrir fullorðna og er aldurstakmark 16 ára og eldri þar sem það inniheldur atriði og lýsingar á kynlífi, ofbeldi og nekt. Verkið verður einnig sýnt í Tjarnarbíói í Reykjavík dagana 14. 19. og 27. febrúar. Í verkinu er „furðusaga sögð með heillandi blöndu brúðuleiks og hefðbundins leikhúss. Sæhjarta endurskapar og endurvekur gömlu sagnirnar um urturnar sem komu á land og fóru úr selshamnum til að búa og elska meðal manna,“ eins og segir í auglýsingu frá Handbendi.

Handrit og leikur: Greta Clough
Leikstjórn: Sigurður Líndal Þórisson
Tónlist og hljóðmynd: Júlíus Aðalsteinn Róbertsson
Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson

Sýningarnar í Tjarnarbíó hefjast allar klukkan 20:00. Brúðuverkið Sæhjarta er stutt af launasjóði sviðslistamanna og sviðslistasjóði.

Handbendi Brúðuleikhús er brúðu/leikhús með höfuðstöðvar á Hvammstanga þar sem leikhúsið setur upp frumsamdar sýningar sem ferðast um allan heim. Leikhúsið er leitt af Gretu Clough, fyrrum listamanni hússins hjá hinu heimsfræga Little Angel Theatre í London. Greta hefur unnið til verðlauna fyrir gæði og frumleika í brúðulistum, og sem leikskáld. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga