Fréttir | 31. janúar 2020 - kl. 10:04
Flensur og aðrar pestir

Samkvæmt vef Embætti landlæknis er inflúensan að ná sér á strik. Á síðustu tveimur vikum var hún staðfest hjá 44 einstaklingum, sem er aukning borið saman við vikurnar á undan. Frá því um mánaðarmótin september/október hafa 141 einstaklingur verið með staðfesta inflúensu. Flestir hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu en inflúensan hefur líka verið staðfest víða annars staðar. Sóttvarnarlæknir gerir ráð fyrir að kórónaveiran berist til Íslands og hefur gripið til ráðstafana til að hefta útbreiðslu hennar hér á landi. Engar aðgerðir munu hins vegar tryggja að veiran berist ekki hingað til lands.

Í ljósi þessarar áhættu þá hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samvinnu við sóttvarnalækni, ákveðið að lýsa yfir óvissustigi hér á landi. Óvissustig þýðir að fastmótað samráð verður viðhaft samkvæmt fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum, upplýsingamiðlun aukin og viðbragðsaðilar munu uppfæra sínar áætlanir. Viðbrögð yfirvalda hér á landi munu beinast að því að hindra sem mest útbreiðslu veirunnar innanlands, tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir veika einstaklinga og viðhalda nauðsynlegri starfsemi innanlands. Almenningur og ferðamenn hér á landi sem telja sig hafa sýkst af veirunni eru hvattir til að hringja í síma 1700 varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið. Einstaklingar með grunsamlega eða staðfesta sýkingu verða settir í einangrun skv. nánari leiðbeiningum.

Sjá nánari upplýsingar um inflúensuna og aðrar pestir á vef Embætti landlæknis.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga