Fréttir | 07. febrúar 2020 - kl. 12:21
Ekki málefnalegt tilefni að breyta samþykktum Byggðasamlags um brunavarnir í A-Hún.

Á fundi byggðaráðs Blönduósbæjar í gær voru gerðar athugasemdir við bókun sveitarstjórnar Húnavatnshrepps, á fundi 28. janúar síðastliðnum, er varðaði samþykktir Byggðasamlags um brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu. Sveitarstjórn Húnavatnshrepps telur nauðsynlegt að gera breytingar á samþykktunum, þar sem m.a. verði kveðið á um framkvæmdastjóra. Nýlega skipaði Blönduósbær nýja stjórnarmenn í stjórn byggðasamlagsins eftir athugasemd frá Húnavatnshreppi um að stjórn Brunavarna Austur-Húnvetninga væri ekki rétt kjörin.

Í bókun byggðaráðs Blönduósbæjar í gær segir:

"Aðeins annar af fráfarandi stjórnarmönnum Blönduósbæjar í Brunavörnum var ekki kjörgengur samkvæmt samþykktum, en sá hinn sami hefur verið virkur stjórnarmaður í tæplega 2 ár, án nokkurra athugasemda eða fyrirvara frá Húnavatnshreppi.

Sveitarstjóri Blönduósbæjar fer með daglega framkvæmdastjórn sveitarfélagsins, en í 7. grein samþykkta Brunavarna stendur orðrétt: Blönduósbær sér um daglegan rekstur Brunavarna. Blönduósbær hafnar því að hugtakanotkun sveitarstjóra Blönduósbæjar í einstaka fundargerðum Brunavarna feli í sér "ranga stjórnsýslu".

Byggðaráð Blönduósbæjar ítrekar fyrri afstöðu sína, og hefur fengið lögfræðiálit sama efnis, að ekki sé málefnalegt tilefni til þess að breyta samþykktum Brunavarna í Austur-Húnavatnssýslu.

Vilji Húnavatnshreppur gera breytingu á skipan fulltrúa í stjórn Brunavarna, tímabundið eða til frambúðar, þá verði það tilkynnt til sveitarstjóra Blönduósbæjar, með vísan til núgildandi samþykkta."

Tengdar fréttir:

Húnavatnshreppur samþykkir kaup BAH á fasteigna að Efstubraut 2

Nýir stjórnarmenn skipaðir í stjórn Byggðasamlags um brunavarnir í A-Hún.

Húnavatnshreppur frestaði afgreiðslu á kauptilboði Brunavarna A-Hún.

Brunavarnir A-Hún. í nýtt húsnæði

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga