Fréttir | 11. febrúar 2020 - kl. 08:50
Vetrarfærð á vegum – ofsaveður á föstudaginn

Vetrarfærð er á vegum í öllum landshlutum og snjóþekja eða hálka og éljagangur á flestum leiðum á Norðurlandi. Vegurinn yfir Þverárfjall er ófær eins og er en unnið er að hreinsa hann. Veðurstofan hefur svo sent frá sér viðvörun vegna austan storms eða ofsaveðurs á föstudaginn. Gul viðvörun er í gildi fyrir allt landið þann dag. Spár gera ráð fyrir að sérlega djúp lægð nálgist landið úr suðvestri og að þrýstingur í lægðarmiðju gæti náð niður í 930 hPa.

Á vef Veðurstofunnar segir: „Búast má við austlægum stormi, roki eða ofsaveðri, hvassast sunnantil á landinu framan af degi. Víða snjókoma eða slydda, úrkomumest sunnan- og austanlands. Hlýnandi veður, rigning á láglendi um landið sunnanvert og við austurströndina seinnipartinn með hita 1 til 5 stig, en vægt frost fyrir norðan. Talsvert hægari vindur á landinu um kvöldið. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar, ekkert ferðveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Líkur eru á foktjóni, sérílagi sunnantil á landinu. Fólki er bent á að sýna varkárni til að fyrirbyggja slys og festa lausamuni eins og frekast er kostur. Einnig má búast má við hárri sjávarstöðu vegna áhlaðanda.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga