Pistlar | 14. febrúar 2020 - kl. 07:48
Það er sama hvaðan gott kemur
Eftir Gunnar Tryggva Halldórsson

Nú eru að hefjast á ný viðræður um mögulega sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Þrjú af þeim fjórum sveitarfélögum eru sameinuð sveitarfélög úr enn smærri einingum og því ætti þetta ekki að vera alveg nýtt verkefni fyrir okkur.

Margir velta eðlilega upp spurningum eins og hvað græða sveitarfélögin á sameiningu og hverju tapa þau? Þessar tvær spurningar yfirtaka oft málefnalega umræðu og varpa skugga á kosti sameiningar. Ávinningur við sameiningu má ekki einungis vera hagræðing í rekstri sem kostar oftast fækkun starfa. Með sameiningu getum við náð fram hagræðingu í rekstri stjórnsýslu, íþrótta- og æskulýðsmála, í skólamálum o.fl. Það eitt og sér er ekki nægilegur ávinningur til sameiningar. Ef við fækkum störfum fækkar fólki og þá eru áhrif sameiningar neikvæð fyrir Austur-Húnavatnssýslu í heild.

Í sameiningarviðræðum verðum við að horfa á hagræðingar í rekstri innviða sem losun á fé til að skapa önnur verkefni. Að sameina einingar má ekki leiða af sér tómar byggingar heldur verða að koma til ný tækifæri á móti sem skapa helst fleiri störf en áður voru til. Það er stóra málið í sameiningarviðræðum sem þessum, að nota peninga hagræðingar til að koma af stað nýjum verkefnum. Ef við getum farið í þessar sameiningarviðræður með yfirlýst markmið að ágóði allra hagræðinga fari í að skapa ný störf erum við með sterkari innviði til að auka atvinnu á svæðinu sem hefur oft verið þungur baggi fyrir okkur öll. Þessi fjögur sveitarfélög þurfa að blása til sóknar á mörgum sviðum. Við getum ekki sætt okkur við stöðugan samdrátt eða fækkun íbúa og að okkar landshluti sé alltaf skilgreindur sem láglaunasvæði. Þess vegna þarf fleiri og betri atvinnutækifæri sem sjálfkrafa byggja upp aðra grunnþætti samfélagsins.

Í fréttum hefur verið fleygt fram að styrkur eða framlag Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga í A-Hún. geti verið rúmar 700 m.kr. Bætum sem mest af þeirri fjárhæð í atvinnuuppbyggingu á svæðinu og þá erum við komin með gott start til að skapa ný tækifæri.

Að ganga til viðræðna um sameiningu sveitarfélaga uppfull af hrepparíg er eyðsla á tíma og almannafé og þannig sjálfhætt. Hvort Jón minn er Skagstrendingur eða Blönduósingur skiptir ekki máli, hann er Húnvetningur!! Þetta er í það minnsta hugarfar sem ég fer með í þessar sameiningarviðræður.

Gunnar Tr. Halldórsson, sveitarstjórnarfulltrúi á Blönduósi

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga