Ljósm: FB/Bjf. Blanda.
Ljósm: FB/Bjf. Blanda.
Fréttir | 14. febrúar 2020 - kl. 13:31
Tjón á tveimur bæjum í Húnaþingi

Töluvert tjón hefur orðið í óveðrinu á tveimur bæjum í Vatnsdal og Víðidal. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í hádeginu að mikið tjón hafi orðið í Vatnsdal þar sem útihús, vélar og íbúðarhús hafi skemmst og að viðbragðsaðilum gangi illa að komast á vettvang vegna veðurs. Nokkur viðbúnaður er hjá yfirvöldum en aðgerðarstjórn er á Sauðárkróki og vettvangsstjórn er á Blönduósi.

Í frétt á ruv.is segir að allar rúður á austurhlið hússins hafi sprungið en brotnuðu ekki og að íbúar hússins haldi til á þeim stað í húsinu sem þykir öruggastur. Beðið er átekta með að senda hjálp en það verður gert þegar veður leyfir. Þá segir að stór hluti þaks á fjárhúsi á bæ í Víðidal hafi fokið. Þar heldur fólk líka kyrru fyrir. Björgunarsveitin Húnar á Hvammstanga verður líklega send þangað þegar veður leyfir.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga