Nöldrið | 15. febrúar 2020 - kl. 17:01
Gangstéttamokarinn

Það er vel að heiðrinum komið fólkið í Björgunarfélaginu Blöndu, sem lesendur Húnahornsins kusu sem “fólk ársins 2019” og tók við viðurkenningu á þorrablótinu á Blönduósi. Eftir því sem manni skilst eru hvergi í heiminum unnin önnur eins sjálfboðaliðastörf til bjargar fólki og dýrum og hér á Íslandi og félagar björgunarsveitanna um land allt hafa sannarlega haft ærinn starfa á þessum óveðra- og slysavetri. Og enn eru þær í viðbragðsstöðu og veitir ekki af, því enn hellast lægðirnar yfir landið og sér ekki fyrir endann á því. Það var hlegið dátt á mínu heimili þegar sagt var frá því í fjölmiðlum að íbúar höfuðborgarsvæðisins hefðu hamstrað matvæli daginn áður en óveðrið átti að skella á, á föstudaginn, og sýndar voru myndir í sjónvarpinu af tómum hillum í verslunum í Reykjavik. Veðurfræðingar voru þó margir búnir að segja að óveðrið gengi hratt yfir, en það er jú betra að vera við öllu búinn. En hvað um það, Nöldri þakkar björgunarsveitarfólkinu okkar óeigingjörn störf og óskar þeim til hamingju með titilinn “maður ársins”.

Gulur hefur lengi verið minn uppáhaldslitur, minnir mig á sumar og sól, birtu og hlýju. Mér hefur líka fundist appelsínugulur fallegur litur að ég tali nú ekki um þann rauða. Nú er farið að nota þessa uppáhallds liti mína á neikvæðan hátt í veðurlýsingum. Gul viðvörun, appelsínugul og alveg upp í rauða. Hvers eiga þessir fallegu litir að gjalda að vera nú orðnir svörtu sauðirnir í litaflórunni. En svona er víst lífið.

Talandi um snjó og stórhríðar sem við höfum séð nóg af í vetur. Ég get ekki annað en tekið undir með þeim fjölmörgu sem skammast yfir mokstri á gangstéttum bæjarins. Það er með öllu ólíðandi þegar lítið moksturstæki brunar eftir gangstéttinni og lokar fyrir heimkeyrslu húsa sem verið var að moka. Tvö tilfelli skal ég tilnefna úr minni götu. Húseigandi hafði greitt 10 þúsund krónur fyrir að láta moka bílastæði við húsið sitt og klukkustund síðar kom gangstéttarmokarinn og lokaði heimkeyrslunni svo heimilisbíllinn sat fastur í röstinni sem ýtti hafði verið upp. Í þar næsta húsi hafði húsbóndinn mokað frá þannig að eiginkonan komst frá húsinu með barnavagninn, en maðurinn var varla farinn þegar gagnstéttarmokarinn var þar á ferð og ruddi snjónum aftur fyrir svo ófært var með barnavagninn út á nýmokaða gangstéttina. Þetta eru aðeins tvö tilvik, en ég hef heyrt um fleiri og fólk er ekki ánægt með svona vinnubrögð.

Það hafa eflaust margir rekið upp stór augu þegar þeir sáu heilsíðuauglýsingarnar frá Blönduósbæ sem birtar hafa verið bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Það er engin minnimáttarkennd í okkar mönnum og ekki leiðinlegt að búa hér í bænum. Í þessari auglýsingu segir m.a. “Bærinn er staðsettur á einu stórbrotnasta bæjarstæði landsins, umvafið fallegri náttúru.”  Og síðar segir. “Fáir staðir á Íslandi vaxa nú jafn hratt og því er framtíðin björt við Blönduós.” Takk fyrir, betra gerist það varla. Þarna eru taldar upp 15 íbúðir og einbýli til sölu og upplýst um fermetra- og herbergjafjölda og verð.  Þá eru auglýst fjöldi starfa sem laus eru í bænum. Nú er bara að sjá hvort eitthvað fjölgi fólkinu eftir þessa herferð bæjaryfirvalda.

Senn lýkur þorra og góa tekur við og með henni fer að glitta í vorið.

Með kveðju
Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga