Veitt í Svartá. Ljósm: AÞ
Veitt í Svartá. Ljósm: AÞ
Fréttir | 16. febrúar 2020 - kl. 13:10
Veiðileyfi í Blöndu og Svartá komin í sölu

Veiðisvæði Blöndu og Svartár eru komin í sölu á veiðileyfavefnum veiða.is. Veiðifélagið Starir er nýr leigutaki svæðanna og hafa miklar breytingar verið gerðar á veiðifyrirkomulaginu fyrir komandi veiðitímabil sem snúa að leyfilegu agni, kvóta og fjölda stanga. Breytingarnar eiga að stuðla að uppbyggingu svæðanna til framtíðar.

Sem dæmi þá má einungis veiða á flugu á veiðisvæðunum. Síðustu ár hefur blandað agn verið leyfilegt á hluta svæðis I í Blöndu og að öllu leyti á svæði II og III. Þá verður kvótinn í Blöndu einn lax á vakt á hverja stöng og verður laxinn að vera hængur sem er undir 68 sentímetrar að lengd.

Sú megin breyting verður gerð við fyrirkomulag veiðileyfa í Svartá fyrir komandi veiðitímabil að þegar holl eru bókuð þá er einungis greitt fyrir 3 stangir, en veiða má á 4 stangir.  Eins og í Blöndu, þá er kvóti á hverri vakt, einn hængur undir 68 cm á hverja stöng og eins og áður er einungis veitt á flugu. Veiðihúsið við Svartá verður tekið í gegn fyrir komandi veiðitímabil og þarf hvert holl að greiða húsgjald og innifalið í því er uppábúið og þrif. Veiðimenn sjá um sig sjálfir í veiðihúsinu, eins og verið hefur.

Á veiða.is má finna nánari upplýsingar um veiðifyrirkomulag og reglur.

Tengdar fréttir:

Breytt veiðifyrirkomulag í Blöndu og Svartá

Veiðifélagið Starir tekur við Blöndu og Svartá

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga