Frá athöfninni í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Ljósm: ssnv.is
Frá athöfninni í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Ljósm: ssnv.is
Fréttir | 17. febrúar 2020 - kl. 21:54
Uppbyggingarsjóðurinn úthlutar styrkjum

Úthlutað var styrkjum úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra við athöfn í Félagsheimilinu á Hvammstanga síðastliðinn fimmtudag. Alls bárust sjóðnum 113 umsóknir þar sem óskað var eftir 170 milljónum króna í styrki en úthlutað var 65 milljónum til 60 aðila sem standa að baki 76 verkefnum. Ávörp fluttu Haraldur Benediktsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis og Lárus Ægir Guðmundsson, formaður úthlutunarnefndar Uppbyggingarsjóðs. Karlakórinn Lóuþrælar söng fjögur lög undir stjórn Ólafs Rúnarssonar við undirleik Elínborgar Sigurgeirsdóttur. Einsöngvari var Guðmundur Þorbergsson. Samkomunni stjórnaði Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Fjármagn Uppbyggingarsjóðsins er hluti af samningi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra við stjórnvöld um framkvæmd Sóknaráætlunar Norðurlands vestra 2020-2024.

Þekkingarsetrið á Blönduósi fékk hæsta einstaka styrkinn eða samtals 5.162.000 vegna viðburða- og markaðsstjóra Prjónagleðinnar. Samgönguminjasafn Skagafjarðar, Selasetur Íslands, Menningarfélagið Spákonuarfur, Kakalaskáli fengu 2,2 milljónir í stofn- og rekstrarstyrki. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi fékk 1,1 milljón í stofn- og rekstrarstyrk, 150 þúsund króna styrk fyrir Stofutónleika í safninu og 250 þúsund króna styrk fyrir Sumarsýningu safnsins. Þá fékk Blönduósbær 400 þúsund króna styrk fyrir Húnavöku – hátíð í bæ og Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps fékk aðra eins fjárhæð.

Alla styrk hafa má sjá á vef SSNV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga