Á Blönduósflugvelli í gær. Ljósm: FB/Guðmundur Haukur
Á Blönduósflugvelli í gær. Ljósm: FB/Guðmundur Haukur
Fréttir | 18. febrúar 2020 - kl. 14:29
Blönduósflugvöllur kom að góðum notum

Blönduósflugvöllur sannaði í gær enn og aftur gildi sitt og tilverurétt. Umferðarslys varð við bæinn Stóru-Giljá um miðjan dag í gær þegar tveir bílar rákust saman. Loka þurfti þjóðveginum og Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til hjálpar. Þyrlan lenti á Blönduósflugvelli sem er spölkorn frá Heilbrigðisstofnuninni og flutti þaðan slasaða til Reykjavíkur. Í síðasta mánuði lenti þyrlan á vellinum og flutti slasaða háskólanema til Reykjavíkur í kjölfar rútuslyss við bæinn Öxl.

„Enn og aftur sýnir sig mikilvægi þessa flugvallar og hversu mikilvægu hlutverki hann gegnir sem hlekkur í okkar öryggisnet. Það er og hefur verið ljóst að það þarf gæta þess að jafn mikilvægur hlekkur og Blönduósflugvöllur er að þá verður að setja í hann þá fjármuni sem þarf til að hann geti sinnt því hlutverki áfram,“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar í færslu á Facebook.

Í síðasta mánuði lenti þyrla Landhelgisgæslunnar á flugvellinum á Blönduósi og flutti slasaða háskólanema til Reykjavíkur í kjölfar rútuslyss við bæinn Öxl, sem er aðeins sunnar en Stóra-Gilja. Í framhaldinu kom upp umræða um ástand flugvallarins og gagnrýni á Isavia fyrir að neita að prófa og votta aðflugshallaljósin á vellinum. Isavia sagðist þá ekki taka ákvörðun um viðhaldsmál, þjónustustig eða uppbyggingu flugvallarins og vísaði á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Það kom ráðuneytinu á óvart og óvissa virðist vera um hvar ábyrgðin liggur.

Í samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra samþykkti í júní í fyrra er lögð áhersla á að Blönduósflugvöllur verði skilgreindur fyrir sjúkraflug og tryggt að hann geti þjónað flugi með viðunandi hætti. Sveitarfélög á svæðinu hafa skorað á stjórnvöld að tryggja að Blönduósflugvöllur fái viðhald og aðbúnað sem nauðsynlegt er svo að hann geti sinnt hlutverki sínum sem sjúkraflugvöllur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga