Nöldrið | 15. mars 2020 - kl. 11:37
Erfiður vetur

Veiran komin. Loðnan farin. Álið að fara. Túristarnir horfnir. Börn á flótta. Krónan fallin. Maxvélarnar strand. Verkföll. Jörðin hristist. Þennan texta las ég við stórgóða skopmynd í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum sem sýndi forsætisráðherrann okkar standa með prik í hendi við töflu í skólastofu þar sem nemendur voru fjármála- og samgöngumálaráðherrann. Þessi vetur hefur um margt verið erfiður landsmönnum með öll sín illviðri og áföll og sér ekki fyrir endann á þeim enn.

Það er þó alltaf af hinu góða þegar hægt er að gera svolítið grín og brosa, þrátt fyrir erfiðleikana. Það er ekki annað hægt en vera þó nokkuð bjartsýnn þegar maður hefur fylgst með tríóinu, sem hefur haldið okkur upplýstum um COVID-19 veiruna, það er sóttvarnarlækni, landlækni og yfirlögregluþjóninum, sem af sumum eru kölluð “þrjú á palli”, en þau virðast vinna sína vinnu vel, eru yfirveguð og gefa góðar leiðbeiningar hvernig fólki ber að haga sér á þessum undarlegu tímum sem við nú lifum. Ég efast stórlega um að fólk almennt hafi rennt grun í fyrir ca. tveimur vikum að hér yrði komið á samkomubann og að fólki yrði ráðið frá því að fara úr landi, enda óvíst hvenær það kemst heim aftur ef farið verður að setja á útgöngubann í mörgum löndum og loka landamærum. Óhjákvæmilega verður manni hugsað til Íslendinga sem nú sitja suður á Canarý og mega ekki fara út af hótelunum. Líklega bara best að sitja í snjónum heima og bíða vorsins, sem auðvitað kemur á endanum, þrátt fyrir allt.

Það væri gaman að fá svar við því hvort snjósleðamenn megi aka um götur bæjarins á þeim hraða sem þeim sýnist, þrátt fyrir að ökuhraði bifreiða hafi verið lækkaður á flestum götum hér, allt niður í 30 km/klst. Ég þori að fullyrða að snjósleðum er oft ekið á tvöföldum þeim hraða ýmist á götunum eða gangstéttunum með tilheyrandi inngjöfum og hávaða og stórhættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Þetta háttalag vélsleðamanna, að aka langt yfir hámarkshraða um bæinn er því afar undarlegur í ljósi þess að akstur vélsleða í þéttbýli er bannaður samkvæmt lögum. Þá hef ég ekki séð að bílstjórar aki margir á leyfilegum  hraða um göturnar eftir að ökuhraðinn var lækkaður. Það virðist lítið hafa breyst í þeim efnum.

Það hefur bætt á snjóinn hér í bænum viku eftir viku í vetur. Enn koma moksturvélar á vegum bæjarins og loka fyrir heimkeyrslur hjá fólki og valda því leiðindum og auknu erfiði. Það hefur litla þýðingu að opna göturnar, en loka heimilisbílinn inni í leiðinni. Hættið þessu verklagi.

Ekki get ég sagt að ég sé bjartsýnn í sameiningarmálum í Austur-Húnavatnssýslu. Það er þegar farið að gefa tóninn fyrir það sem koma skal. “Húnavatnshreppur vill að mörkuð verði stefna um framtíðarverkefni á Húnavöllum ef skólahald leggist þar af”. Mjög líklega leggst skólastarf af þar innan einhverra ára og hefði mátt fara að ræða þau mál fyrir löngu. Skagstrendingar telja mikilvægt “að komast að niðurstöðu um meðferð þeirra fjármuna sem Sveitarfélagið Skagaströnd á”. Auðvitað hefur legið fyrir lengi að mikilvægt er að ræða þannig mál, en hefði kannski mátt koma fram með hugmyndina fyrr. Er nokkuð verið að fresta ákvarðanatöku um sameiningu einu sinni enn?

Við skulum ekki tapa voninni, öll él birtir upp um síðir og vorið er að koma. Gleðilega páska.

Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga