Fréttir | 24. mars 2020 - kl. 12:49
Pistill sveitarstjóra á heimasíðu Blönduósbæjar
Frá Valdimari O. Hermannssyni, sveitarstjóra Blönduóssbæjar

Kæru íbúar                                                                             

Eftir fyrstu viku í samkomubanni þá er mér þakklæti efst í huga, fyrir þá samstöðu sem við sem samfélag höfum öll sýnt, við þessar fordæmalausu aðstæður. Sérstaklega ber að þakka skólastjórnendum, bæði leik og grunnskóla, fyrir flókna skipulagningu, við það að halda starfsemi skólanna gangandi, þó það sé með  breyttu sniði, og einnig öðrum starfsmönnum. Þá er óvenjulega mikið álag á heilbrigðisstarfsfólki og öllum þeim sem sinna þjónustu við viðkvæma hópa, að ógleymdum þeim sem eru í framlínu á okkar svæði í almannavörnum.  

Allt skipulag skólahalds sveitarfélagsins miðast að því að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum yfirvalda, en þar er gefið svigrúm fyrir útfærslur á skólahaldi á hverjum stað. Í upphafi viku þá er ákveðið að halda starfsemi leik og grunnskóla óbreyttri frá síðustu viku, en tilkynnt verður um það ef og þegar breytingar verða á því starfi, beint frá skólunum og á heimasíðu okkar.  Skrifstofa sveitarfélagsins er nú lokuð fyrir almennri afgreiðslu, en leitast er við að leiðbeina og svara öllum erindum í gegnum síma, eða með tölvupósti. Sjá nánar á www.blonduos.is.

Sveitarstjórn Blönduósbæjar mun halda AUKAFUND, í dag [í gær 23. mars] og ræða ástandið og viðbrögð. 

Nú fer í hönd tími þar sem við þurfum öll að standa saman og sýna samfélagslega ábyrgð í því hvernig við heftum COVID-19 faraldurinn. Við þurfum að huga sérstaklega að þeim íbúum sem eru veikir fyrir, og leggja okkur fram um að aðstoða þá sem á þurfa að halda.

Þrátt fyrir stöðuna í dag þá vil ég sérstaklega vekja athygli á því að þetta er tímabundið ástand, og öll él birta upp um síðir.

Valdimar O Hermannsson,

Sveitarstjóri

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga