Fréttir | 26. mars 2020 - kl. 19:37
Hefur ekki fengið sumarfrí í átta ár

Dýralæknirinn Ingunn Reynisdóttir hefur sagt upp þjónustusamningi sínum við Húnavatnssýslur. Hún hefur séð um dýralækningar fyrir Matvælastofnun í Húnavatnssýslum frá 2012 og er eini dýralæknirinn sem býr á svæðinu. Hún tilkynnti um það á Facebook síðu sinni að hún hefði sagt upp samningnum.

Hún segir að ástæðan fyrir uppsögn sé búin að vera að hlaðast upp á löngum tíma þar sem hún sinni alltof stóri svæði, engar séu afleysingar og að hún hafi ekki fengið sumarfrí í átta ár. Hún segir að ekkert útlit sé fyrir að breyting verði á starfsumhverfi sínu þar sem samningaviðræður við Matvælastofnun og ráðuneytið séu ekki að skila neinu.

„En dropinn sem fyllti mœlinn var viðmótið og svörin sem ég fékk frá matvœlastofnun þegar ég tilkynnti þeim að ég vœri komin í fyrirskipaða sóttkví vegna Covid 19. Mér tjáð að ég þyrfti að útvega afleysingu og greiða fyrir hana sjálf. Fœ semsagt engar þjónustugreiðslur/laun á meðan. Hef semsagt ákveðið að standa með sjálfri mér í þetta skipti,“ segir Ingunn á Facebook síðu sinni.

Ríkisútvarpið fjallar um þetta mál í dag og haft er eftir Sigurborgu Daðadóttur, yfirdýralækni hjá MAST að búið sé að útvega afleysingu. Samningur sé samningur, það sama eigi við hér og um aðra og Ingunn hafi verið bent á að leita til Vinnumálastofnunar.

Í þjónustusamningum dýralækna er ákvæði um að dýralæknar eigi í forföllum eða veikindum að útvega afleysingu sjálfir. Takist það ekki sé hægt að leita aðstoðar hjá Matvælastofnun við að finna hana. Meðan á forföllum stendur fá dýralæknar ekki greidd laun.

Ingunn segist í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að hafa haldið að aðstæður væru öðruvísi í dag en vanalega. Ómögulegt sé að finna afleysingu sem sé ástæða þess að hún hafi einungis fengið nokkra daga í frí frá því hún byrjaði. „Þetta er búið að vera í samningum síðan 2011 og við höfum bara alls ekki fengið því breytt, þjónustudýralæknar.“ Samningar renni hins vegar út fyrsta maí og enginn dýralæknir muni skrifa undir óbreyttan samning.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga