Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 28. mars 2020 - kl. 15:38
Mikilvægt að virða reglur og viðmið þó úrvinnslusóttkví sé lokið

Úrvinnslusóttkvíin sem íbúar í Húnaþingi vestra þurftu að búa við stóð yfir í viku en henni er nú lokið. Öll starfsemi í sveitarfélaginu hefur verið meira og minna lömuð, fyrirtæki lokuð og fólk að vinna heima hjá sér. Þá voru takmarkanir á því hversu margir máttu fara og sækja nauðsynjar. Öll almenn þjónusta hjá sveitarfélaginu hefur legið niður þessa vikuna.

Á vef Húnaþings vestra kemur fram að á mánudaginn fer starfsfólk sveitarfélagsins að vinna eftir þeirri áætlun sem var í gildi áður en úrvinnslusóttkvíin var sett á. Áfram verða þó flestar stofnanir sveitarfélagsins lokaðar fyrir gestum en starfsfólk sinnir störfum sínum líkt og fyrr hefur verið kynnt.

Leikskólinn verður opinn á mánudaginn og fá foreldrar póst þess efnis í dag þar sem m.a. verður gert grein fyrir hvernig skólastarfi verður háttað á næstu vikum. Sóttkví hjá nemendum og starfsfólki grunnskólans breytist ekki og stendur til og með 30. mars. Skólastjórnendur verða í sambandi við foreldra um helgina varðandi skólastarf þegar sóttkví lýkur.

Tónlistarskólinn verður lokaður eitthvað áfram en kennarar munu heyra í nemendum í byrjun vikunnar og foreldrar fá póst um hvernig kennslu verði háttað í framhaldinu. Bókasafn og íþróttamiðstöð verða áfram lokuð þar til um annað verður tilkynnt.

Þrátt fyrir að úrvinnslusóttkví sé felld úr gildi er mikilvægt að íbúar gæti almennra sóttvarna og virði þær reglur og viðmið sem gefin hafa verið út af sóttvarnalækni til hins ýtrasta. Allar leiðbeiningar og reglur er að finna á covid.is.

Rétt er að minna á að þeir einstaklingar sem eru í 14 daga sóttkví að tilmælum heilbrigðisyfirvalda búa við óbreytt ástand þar til henni lýkur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga