Fréttir | 31. mars 2020 - kl. 11:50
Engin smit staðfest í A-Hún.

Engin kórónuveirusmit hafa verið staðsett í Austur-Húnavatnssýslu hingað til. Á Norðurlandi vestra hafa 22 smit verið staðfest, 19 í Húnaþingi vestra, en þar bíða 15 sýni greiningar, og þrjú í Skagafirði. Samtals eru 396 í sóttkví á svæðinu samkvæmt vefnum covid.is en vonandi lækkar sú tala verulega í dag því í gærkvöldi lauk tveggja vikna sóttkví starfsfólks, kennara og nemenda Grunnskóla Húnaþings vestra. Hefðbundin kennsla hefst þó ekki fyrr en að afloknu páskafríi.

Alls fóru 220 manns í sóttkví fyrir hálfum mánuði síðan eftir að starfsmaður í grunnskólanum reyndist smitaður af kórónuveirunni. Í gærkvöldi losnuðu um 200 af þeim úr sóttkví en áfram verði um 100 manns í sóttkví í sveitarfélaginu.

Á vef Húnaþings vestra kemur fram að nokkrar ábendingar hafi borist um að fólk sem er í sóttkví virði ekki reglur þar um. Þar er ítrekað mikilvægi þess að virða reglur sóttvarnarlæknis um sóttkví sem og um samkomubann. Þá er fólki bent á að virða fjarlægðarmörk. Ávallt skal hafa í huga að hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skal tryggt að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga