Mynd: AST Norðurland vestra
Mynd: AST Norðurland vestra
Fréttir | 01. apríl 2020 - kl. 15:53
28 í einangrun á Norðurlandi vestra
vegna Covid-19

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra hefur birt fjölda þeirra sem eru í einangrun, sóttkví og hafa lokið sóttkví í umdæminu í dag, skipt eftir póstnúmerum. Þar kemur fram að 28 einstaklingar eru í einangrun, 25 í Húnaþingi vestra og þrír á Sauðárkróki. Í sóttkví eru 160 einstaklingar og 300 hafa lokið sóttkví. Flestir eru í sóttkví í Húnaþingi vestra eða 75 og þar hafa einnig flestir lokið sóttkví eða 232.

Í Austur-Húnavatnssýslu eru 28 í sóttkví en 32 hafa lokið sóttkví. Í Skagafirði og Fljótum eru 55 í sóttkví en 36 hafa lokið sóttkví.

Samkvæmt tölum á vefnum covid.is sem uppfærar eru daglega klukkan 13 kemur fram að staðfest smit á Norðurlandi vestra er 29 og að 146 er í sóttkví. Á landinu öllu hafa 1.220 smit verið staðfest, 982 eru í einangrun, 41 á sjúkrahúsi, 12 á gjörgæslu, 7.822 í sóttkví, 236 er batnað og 7.735 hafa lokið sóttkví. Alls hafa 19.516 sýni verið tekin. Flest eru smitin á höfuðborgarsvæðinu eða 918, næst flest á Suðurlandi 118, svo á Suðurnesjum 54, þá á Norðurlandi eystra 32, Norðurlandi vestra er með 29 smit eins og áður sagði, Vesturland 24, Vestfirðir 6 og á Austurlandi eru 5 staðfest smit. Óstaðsett smit eru 32.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga